Spánverjar áfram með fullt hús stiga

Sergio Ramos fagnar marki sínu í Madríd í kvöld.
Sergio Ramos fagnar marki sínu í Madríd í kvöld. AFP

Alls 12 leikir fóru fram í undankeppni EM karla í knattspyrnu í kvöld. Spánverjar hafa nú unnið alla fjóra leiki sína í F-riðlinum eftir 3:0-sigur á Svíþjóð og þá höfðu lærisveinar Lars Lagerbäck í Noregi betur gegn Færeyjum, 2:0.

Spánverjar og Svíar voru ósigraðir fyrir umferðina en Sergio Ramos kom heimamönnum á bragðið af vítapunktinum í Madríd í kvöld áður en Álvaro Morata og Mikel Oyarzabal innsigluðu sannfærandi sigur. Spánverjar eru nú langefstir í riðlinum með 12 stig en næst koma Rúmenar og Svíar með sjö stig.

Þá er Noregur með fimm stig eftir sigurinn gegn Færeyjum en lærisveinar Lagerbäck gerðu grátlegt 2:2-jafntefli gegn Rúmeníu um helgina, eftir að hafa komist í tveggja marka forystu. Björn Maars Johnsen skoraði bæði mörk norska liðsins  í Þórshöfn.

Danmörk vann loks leik í undankeppninni er liðið sigraði Georgíu, 5:1, í Kaupmannahöfn en Danir máttu sætta sig við jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum í D-riðlinum. Kasper Dolberg skoraði tvö mörk, Christian Eriksen, Yussuf Poulsen og Martin Braithwaite eitt hver.

Þar tróna Írar á toppnum með tíu stig eftir sigur á Gíbraltar í kvöld, 2:0, en Danir koma þar næstir með fimm stig og eiga þar að auki leik til góða. Fyrra mark Íra var sjálfsmark og það síðara skoraði Robert Brady.

Úrslit kvöldsins

A-riðill:
Búlgaría - Kosóvó 2:3
Tékkland - Svartfjallaland 3:0

England 6 stig, Tékkland 6, Kósóvó 5, Svartfjallaland 2, Búlgaría 2.

B-riðill:
Serbía - Litháen 4:1
Úkraína - Lúxemborg 1:0

Úkraína 10 stig, Lúxemborg 4, Serbía 4, Portúgal 2, Litháen 1.

D-riðill:
Danmörk - Georgía 5:1
Írland - Gíbraltar 2:0

Írland 10 stig, Danmörk 5, Sviss 4, Georgía 3, Gíbraltar 0.

F-riðill:
Færeyjar - Noregur 0:2
Malta - Rúmenía 0:4
Spánn - Svíþjóð 3:0

Spánn 12 stig, Svíþjóð 7, Rúmenía 7, Noregur 5, Malta 3, Færeyjar 0.

G-riðill:
Lettland - Slóvenía 0:5
Norður-Makedónía - Austurríki 1:4
Pólland - Ísrael 4:0

Pólland 12 stig, Ísrael 7, Austurríki 6, Slóvenía 5, Norður-Makedónía 4, Lettland 0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert