Frakkar skoruðu fjögur í Andorra

Frakkar unnu öruggan sigur.
Frakkar unnu öruggan sigur. AFP

Frakkland vann sannfærandi 4:0-útisigur á Andorra í H-riðli, riðlinum sem Ísland er í, í undankeppni EM karla í fótbolta í dag. 

Kylian Mbappé kom Frakklandi yfir strax á 11. mínútu og Wissam Ben Yedder bætti við öðru marki eftir hálftíma leik. Rétt fyrir leikhlé bætti Florian Thauvin við þriðja marki Frakka og sá til þess að staðan væri 3:0 í hálfleik. 

Frakkarnir voru rólegri í seinni hálfleik og reyndist mark Kurt Zouma vera síðasta mark Frakka og síðasta mark leiksins. Frakkland, Ísland og Tyrkland eru nú öll með níu stig í þremur efstu sætum riðilsins. 

Albanía hafði svo betur gegn Moldóvu á heimavelli, 2:0. Sokol Cikalleshi skoraði fyrra mark Albaníu eftir klukkutíma og Ylber Ramadani bætti við öðru marki í lokin. Albanía er með sex stig en Moldóva þrjú. 

mbl.is