Neymar sagður vilja fara frá París

Neymar vill komast aftur til Barcelona eftir tvö vonbrigðatímabil í …
Neymar vill komast aftur til Barcelona eftir tvö vonbrigðatímabil í Frakklandi. AFP

Neymar, dýrasti knattspyrnumaður heims og leikmaður PSG í Frakklandi, er sagður hafa beðið um sölu frá félaginu en það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu. Neymar er sagður vilja fara aftur til Barcelona en PSG keypti hann af Barcelona, sumarið 2017, fyrir 200 milljónir punda.

Neymar fór til PSG til þess að verða skærasta stjarna knattspyrnunnar en hann ætlaði sér að vinna Meistaradeild Evrópu með liðinu. PSG féll úr leik í keppninni í ár í sextán liða úrslitum, líkt og í fyrra og hann vill nú komast aftur til Barcelona þar sem hann varð tvívegis Spánarmeistari og einu sinni Evrópumeistari.

Sport greinir frá því að PSG ætli að gera allt til þess að halda Neymar hjá félaginu og séu tilbúnir að bjóða honum betrumbættan samning en þrátt fyrir það sé sóknarmaðurinn ákveðinn í að yfirgefa félagið í sumar. Barcelona er tilbúið að fá Neymar aftur á Nývang en félagið ætlar sér ekki að borga 200 milljónir punda fyrir leikmanninn.

mbl.is