Skoruðu þrettán mörk og settu HM-met

Alex Morgan fagnar einu fimm marka sinna í kvöld.
Alex Morgan fagnar einu fimm marka sinna í kvöld. AFP

Bandaríkin unnu í kvöld stærsta sigur í sögu úrslitakeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu en bandarísku heimsmeistaranir gjörsigruðu Taíland 13:0 í lokaleik fyrstu umferðar mótsins í Reims í Frakklandi.

Taíland leikur í annað skiptið í röð í lokakeppni HM,  vann meira að segja á leik á HM í Kanada 2015, og hefur sótt sig mjög á undanförnum árum. Þetta risatap kemur því talsvert á óvart en staðan var 3:0 í hálfleik og þá benti ekkert til þess að útreiðin yrði svona svakaleg.

Stærsti sigur keppninnar til þessa var 11:0 sigur Þýskalands á Argentínu árið 2007.

Alex Morgan skoraði fimm mörk í leiknum, Samantha Mewis tvö, Rose Lavelle tvö og þær Lindsey Horan, Megan Rapinoe, Mallory Pugh og Carli Lloyd gerðu sitt markið hver.

Þar með eru Bandaríkin og Svíþjóð með 3 stig eftir fyrstu umferð F-riðils en Svíar unnu Síle 2:0 fyrr í dag.

mbl.is