Þægilegt hjá Belgum og Þýskalandi

Romelu Lukaku fagnar öðru marki sínu gegn Skotum en hann …
Romelu Lukaku fagnar öðru marki sínu gegn Skotum en hann skoraði tvívegis í leiknum. AFP

Marco Reus og Serge Gnabry skoraðu báðir tvívegis fyrir Þjóðverja þegar Þýskaland fékk Eistland í heimsókn í C-riðli undankeppni EM í knattspyrnu í dag en Þjóðverjar unnu stórsigur í leiknum, 8:0. Staðan í hálfleik var 5:0, þýska liðinu í vil, en Reus, Serge Gnabry, Leon Goretzka og Ilkay Gündogan skoruðu fyrir Þjóðverja í fyrri hálfleik.

Gnabry, Timo Werner og Leroy Sané bættu við mörkum fyrir þýska liðið í síðari hálfleik sem með 9 stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í riðlinum. Í hinum leik C-riðils mættust Hvíta-Rússland og Norður-Írland þar sem Patrick McNair reyndist hetja Norður-Íra en hann skoraði sigurmark leiksins á 86. mínútu. Norður-Írar eru í efsta sæti riðilsins með 12 stig eftir fjóra leiki en Holland er í þriðja sæti C-riðils með 3 stig eftir tvo leiki.

Belgar tylltu sér á toppinn í I-riðli eftir þægilegan 3:0-sigur gegn Skotum þar sem Romelu Lukaku skoraði tvívegis fyrir Belga og Kevin De Bruyne bætti við þriðja marki liðsins í uppbótartíma. Belgar eru í efsta sæti riðilsins með 12 stig eða fullt hús stiga eftir fjóra leiki en Skotar eru í fjórða sætinu með 6 stig eftir fjóra leiki.

Marco Verratti tryggði Ítölum sigur gegn Bosníu í kvöld.
Marco Verratti tryggði Ítölum sigur gegn Bosníu í kvöld. AFP

Rússar mörðu Kýpur í Rússlandi með einu marki gegn engu þar sem Aleksei Ionov skoraði sigurmark leiksins á 38. mínútu og lokatölur því 1:0. Rússar eru komnir í annað sæti riðilsins í 9 stig eftir fjóra leiki en Kýpur er í næst neðsta sæti I-riðils með 3 stig.

Marco Verratti reyndist hetja Ítala þegar liðið fékk Bosníu í heimsókn í J-riðli en hann skoraði sigurmark Ítala á 86. mínútu. Edin Dzeko kom Bosníu yfir á 32. mínútu en Lorenzo Insigne jafnaði metin fyrir Ítali á 49. mínútu. Ítalir eru í efsta sæti riðilsins með 12 stig eftir fjóra leiki en Bosnía er í fimmta sæti riðilsins með 4 stig. 

Helgi Kolviðsson og lærisveinar hans í Liechtenstein töpuðu á heimavelli fyrir Finnlandi, 2:0, þar sem þeir Teemu Pukki og Benjamin Källman skoruðu mörk Finna en Liechtenstein er í neðsta sæti J-riðils án stiga eftir fjóra leiki en Finnar eru í öðru sætinu með 9 stig.

Þá var mikið skorað í leik Grikkja og Armeníu sem fram fór í Grikklandi en þar unnu Armenar óvæntan 3:2-sigur. Armenar komust í 3:1 með marki fyrá Tigran Barseghyan en Konstaninos Fortounis minnkaði muninn fyrir Grikki á 86. mínútu en lengra komust þeir ekki og Armenar fögnuðu sigri. Armenía er í þriðja sæti J-riðils með 6 stig eftir fjóra leiki en Grikkir eru í fjórða sætinu með 4 stig.

Þá tyllti Ungverjaland sér á toppinn í E-riðli með 1:0-sigri á Wales á heimavelli þar sem Mate Patkai skoraði sigurmark leiksins á 81. mínútu. Ungverjar eru með 9 stig á toppi riðilsins eftir fyrstu fjóra leiki sína en Wales er í fjórða sætinu með 3 stig eftir þrjá leiki.

mbl.is