„Var slakari en ég átti von á“

Philippe Coutinho er orðaður við brottför frá Barcelona eftir vonbrigðatímabil …
Philippe Coutinho er orðaður við brottför frá Barcelona eftir vonbrigðatímabil með liðinu á nýafstaðinni leiktíð. AFP

Philippe Coutinho, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, viðurkenndi í samtali við brasilíska fjölmiðla á dögunum að hann hefði átt dapurt tímabil með Barcelona í spænsku 1. deildinni á nýafstaðinni leiktíð.

Coutinho gekk til liðs við Barcelona frá Liverpool í janúar 2018 en spænska félagið borgaði í kringum 140 milljónir punda fyrir leikmanninn. „Ég átti ekki gott tímabil, ég get alveg viðurkennt það,“ sagði Coutinho.

„Ég var slakari en ég átti sjálfur von á og ég olli stuðningsmönnum liðsins vonbrigðum með frammistöðu minni. Knattspyrna snýst um sjálfstraust og það eina sem maður getur gert er að halda áfram að reyna bæta sig.“

„Ég lagði mikið á mig á þessu tímabili og mun halda áfram að gera slíkt hið sama á næstu leiktíð,“ sagði Coutinho en hann hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu í sumar en franska stórliðið PSG er sagt áhugasamt um leikmanninn.

mbl.is