Bandaríkin sökuð um virðingarleysi

Alex Morgan skoraði fimm mörk gegn Taílandi á HM kvenna …
Alex Morgan skoraði fimm mörk gegn Taílandi á HM kvenna í gær. AFP

Bandaríska kvennalandsliðið í knattspyrnu setti met á HM í Frakklandi í gær þegar liðið vann stórsigur gegn Taílandi í lokaleik fyrstu umferðar mótsins í Reims en leiknum lauk með 13:0-sigri bandaríska liðsins. Staðan í hálfleik var 3:0, bandaríska liðinu í vil, og benti fátt til þess að leiknum myndi ljúka með 13:0-sigri. 

Alex Morgan skoraði fimm mörk í leiknum, Samantha Mewis tvö, Rose Lavelle setti tvö og þeir Lindsey Horan, Megan Rapinoe, Mallory Pugh og Carli Loyd skoruðu sitt markið hver. Leikmenn liðsins fögnuðu öllu mörkunum af mikilli innlifun og ákefð og í HM-stofu kandadíska ríkissjónvarpsins var bandaríska liðið sakað um mikið virðingarleysi í garð taílenska liðsins. 

„Þegar að þú ert Alex Morgan og ert að telja upp mörkin sem þú skorar á fingrum þínum þá ertu einfaldlega að sýna óvirðingu. Auðvitað á maður að fagna mörkunum sínum en þegar að þú ert að vinna 10:0 þá þarftu ekki að fagna hverju einasta marki með einhverri sýningu,“ sagði Clare Rustad meðal annars en hún á að baki 45 landsleiki fyrir Kanada.

mbl.is