Dramatík hjá Frakklandi og Noregi

Eugenie Le Sommer fagnar sigurmarki sínu gegn Norðmönnum í Nice ...
Eugenie Le Sommer fagnar sigurmarki sínu gegn Norðmönnum í Nice í kvöld. AFP

Eugenie Le Sommer reyndist hetja Frakka þegar Frakkland vann 2:1-sigur gegn Noregi í A-riðli HM kvenna í knattspyrnu í Nice í Frakklandi í kvöld. Sommer skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu á 72. mínútu. Leikurinn fór fjörlega af stað en hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik og staðan því markalaus í hálfleik.

Strax á 46. mínútu kom Valerie Gauvin franska liðinu yfir af stuttu færi út teignum eftir fyrirgjöf Amel Majri. Forysta Frakka entist ekki lengi því aðeins átta mínútum síðar átti Isabell Herlovsen fyrirgjöf frá vinstri inn í teiginn og Wendie Renard varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Á 70. mínútu braut Ingrid Engen klaufalega af sér innan teigs og vítaspyrna dæmd. Sommer skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni og tryggði Frökkum þrjú stig en liðið er í efsta sæti A-riðils með 6 stig eftir fyrstu tvær umferðir riðlakeppninnar. 

Noregur er í öðru sætinu með 3 stig, líkt og Nígería en Suður-Kórea rekur lestina án stiga. 17. júní næstkomandi mætast Norðmenn og Suður-Kóreu og Nígería og Frakkland í lokaumferð A-riðils.

mbl.is