Er glaðasti maður í heimi

Luka Jovic í treyju Real Madrid.
Luka Jovic í treyju Real Madrid. Ljósmynd/Real Madrid

Serbneski landsliðsmaðurinn Luka Jovic var kynntur til leiks hjá spænska stórliðinu Real Madrid í dag að undangenginni læknisskoðun.

Jovic er 21 árs gamall sóknarmaður sem kemur til Madridarliðsins frá þýska liðinu Eintracht Frankfurt þar sem hann skoraði 25 mörk í 49 leikjum með liðinu.

„Ég er mjög spenntur og ég er þess fullviss að ég tók rétta ákvörðun að fara til Real Madrid. Ég mun leggja hart að mér að vinna titla með félaginu. Ég er glaðasti maður í heimi í dag,“ sagði Jovic eftir að hafa skrifað undir sex ára samning við Real Madrid.

Það er skammt stórra höggva á milli hjá Real Madrid því á morgun verður belgíski landsliðsmaðurinn Eden Hazard kynntur til leiks á Santiago Bernabeu en hann mun skrifa undir fimm ára samning við félagið.

mbl.is