Griezmann á leið til Barcelona

Antoine Griezmann mun ganga til liðs við Barcelona í sumar.
Antoine Griezmann mun ganga til liðs við Barcelona í sumar. AFP

Knattspyrnumaðurinn Antoine Griezmann er á leið til Barcelona en þetta staðfesti Gil Marin, stjórnarformaður Atlético Madrid, í dag. Griezmann hefur leikið með Atlético Madrid undanfarin fimm ár en hann gekk til liðs við félagið frá Real Sociedad árið 2014.

Griezmann hafði sjálfur gefið það út að hann væri á förum frá Atlético Madrid í sumar og var hann sterklega orðaður við Barcelona í sumar. Félagskiptin hafa hins vegar gengið hægt og hafa fjölmiðlar á Spáni verið duglegir að orða Frakkann við önnur lið að undanförnu.

Kaupverðið hefur ekki enn þá verið gefið upp en Griezmann, sem er 28 ára gamall mun að öllum líkindum skrifa undir fimm ára samning við Barcelona. Griezmann skoraði 15 mörk og lagði upp önnur 9 í 37 leikjum með Atlético Madrid í spænsku 1. deildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is