Argentína lítil fyrirstaða fyrir Kólumbíu

Roger Martínez fagnar marki sínu gegn Argentínu í nótt.
Roger Martínez fagnar marki sínu gegn Argentínu í nótt. AFP

Kólumbía vann nokkuð öruggan 2:0-sigur gegn Argentínu í B-riðli Ameríkubikarsins í knattspyrnu á Fonte Nova-vellinum í Salvador í Brasilíu í nótt. Kólumbíska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, án þess þó að ná að skora, og staðan markalaus í hálfleik.

Roger Martínez kom Kólumbíu svo yfir með afar fallegu marki á 71. mínútu en hann fór illa með varnarmann Argentínu, kom sér inn í teiginn og skrúfaði boltann snyrtilega í fjærhornið framhjá Franco Armani í marki Argentínu.

Duván Zapata bætti svo við öðru marki Kólumbíu á 86. mínútu þegar hann skallaði knöttinn í netið af stuttu færi úr teignum eftir fyrirgjöf Jefferson Lerma. Lionel Messi var í byrjunarliði Argentínu í leiknum í nótt en lét lítið fyrir sér fara.

Kólumbía fer því vel af stað B-riðli keppninnar og er með 3 stig eftir fyrstu umferðina en Argentína er án stiga en síðar í dag mætast Paragvæ og Katar í B-riðli keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert