Líður eins og ég sé að deyja

Francesco Totti var tilfinningaríkur í dag.
Francesco Totti var tilfinningaríkur í dag. AFP

Francesco Totti er hættur störfum hjá ítalska knattspyrnufélaginu Roma eftir 30 ára veru hjá félaginu, fyrst sem leikmaður og svo sem stjórnarmaður. Totti er allt annað en sáttur við eignarhald félagsins og lét hann þá heyra það á blaðamannafundi í dag. 

Bandaríkjamaðurinn James Pallotta á félagið í dag og er Totti óhress með hans störf. Þrátt fyrir að vera í stjórn félagsins fékk Totti ekkert að segja um ráðningar á stjórum, eða leikmannakaup. 

„Ég fékk ekki tækifæri til að tjá mig. Ég fékk ekki að vera með í neinu. Þetta er dagur sem ég vonaðist til að myndi aldrei koma,“ sagði Totti um brotthvarf sitt. 

„Forsetar koma og fara, stjórar koma og fara og leikmenn koma og fara, en ekki það sem félagið stendur fyrir. Þetta er mikið verra en að hætta sem leikmaður og mér líður eins og ég sé að deyja. Það er betra að deyja en að yfirgefa Roma,“ sagði tilfinningaríkur Totti. 

Daniele De Rossi yfirgaf Roma eftir leiktíðina, en hann hafði alla tíð leikið með félaginu. Totti var ekki ánægður með þá ákvörðun. „Bandaríkjamennirnir eru búnir að gera allt sem þeir geta til að losna við heimamenn síðustu átta ár. Þeir hafa svo ekki komið til Rómar í meira en ár,“ sagði Totti enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert