Markavélarnar settu met

Carli Lloyd fagnar marki sínu.
Carli Lloyd fagnar marki sínu. AFP

Það breytti litlu fyrir Bandaríkin að Jill Ellis, landsliðsþjálfari, hafði gert sjö breytingar á byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Síle í riðlakeppni HM kvenna í fótbolta í gær.

Bandaríska liðið setti nýtt met með að skora þrettán mörk í fyrsta leik á móti Taílandi, en liðið lét þrjú mörk nægja gegn Síle. Lokatölur urðu 3:0 og átti Christiane Endler í marki Síle stórleik. Hún kom hins vegar ekki í veg fyrir að Bandaríkin tryggðu sætið sitt í sextán liða úrslitum.

Carli Lloyd skoraði tvö markanna og varð hún fyrsti leikmaðurinn í sögunni til að skora í sex leikjum í röð á lokamóti HM. Hún skoraði í öllum leikjunum í útsláttarkeppninni árið 2015 og átti stóran þátt í að Bandaríkin tryggðu sér heimsmeistaratitilinn. Með öðru markinu varð hún svo elsti leikmaður sögunnar til að skora tvö mörk í sama leiknum á lokamóti HM en Lloyd er 36 ára gömul. Með sigrinum fóru Bandaríkin upp í sex stig og toppsæti F-riðilsins. Liðið er með markatöluna 16:0 og lítur gríðarlega vel út. Bandaríkin og Svíþjóð eigast við í hreinum úrslitaleik um efsta sætið á fimmtudaginn kemur.

Svíþjóð vann 5:1-sigur á Taílandi í Nice og tryggði sér einnig sæti í sextán liða úrslitum. Bjuggust margir við öðrum risaskell hjá taílenska liðinu, þar sem staðan var orðin 2:0 eftir aðeins 19 mínútur. Þær sænsku slökuðu hins vegar örlítið þegar leið á leikinn og Taíland skoraði sitt fyrsta mark á mótinu í uppbótartíma. Sænska liðið lék betur en í 2:0-sigrinum á Síle og skutu þær sænsku 34 sinnum á mark Taílands. Þrátt fyrir tapið var Nuengrutai Srathongvian, þjálfari taílenska liðsins, himinlifandi eftir leikinn.

„Þetta mark gefur okkur mikið. Það er erfitt að skora á móti liði eins og Svíþjóð og það sýnir að undirbúningurinn okkar hefur verið góður. Markið fékk okkur til að brosa, hlæja og gleðjast,“ sagði hann við fjölmiðla eftir leik.

Sjá alla greinina á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert