Stjörnustælar ekki liðnir lengur

Neymar gekk til liðs við PSG sumarið 2017 og er …
Neymar gekk til liðs við PSG sumarið 2017 og er dýrasti knattspyrnumaður sögunnar. AFP

Nasser Al-Khelaifi, forseti franska knattspyrnufélagsins PSG, er orðinn þreyttur á hegðun margra lykilmanna liðsins. Al-Khelaifi tók við forsetaembættinu hjá PSG í október árið 2011 og hefur verið duglegur að bæta við sig öflugum leikmönnum þá en markmiðið er að gera franska félagið að stórveldi í Evrópu.

PSG gerði Neymar að dýrasta knattspyrnumanni heims, sumarið 2017, þegar félagið borgaði tæpar 200 milljónir punda fyrir hann og þá hefur félagið einnig fengið öfluga leikmenn á borð við Thiago Silva, Kylian Mbappé og Edinson Cavani til félagsins í stjórnartíð Al-Khelaifi. Al-Khelaifi var í viðtali hjá France Football á dögunum þar sem hann sagði að hann væri orðinn þreyttur á hegðun margra lykilmanna liðsins, utan vallar, en viðtalið hefur vakið mikla athygli.

„Það er kominn tími til þess að leikmenn liðsins sýni meiri ábyrgð, utan sem innan vallar, en þeir hafa gert í gegnum tíðina. Héðan í frá munu hlutirnir breytast hjá félaginu og við munum gera þetta öðruvísi. Leikmenn liðsins þurfa að leggja harðar að sér og og haga sér mun betur. Þeir eru ekki hérna til þess að gera það sem þeir vilja, þeir eru hjá þessu félagi til þess að ná árangri. Ef þeir vilja ekki laga sig að breyttum aðstæðum mega þeir fara, ég er kominn með nóg af stjörnustælum og það verður ekki liðið,“ sagði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert