Neymar nálgast Barcelona

Neymar er sagður vera að snúa aftur til Spánar.
Neymar er sagður vera að snúa aftur til Spánar. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar er nálægt því að ganga til liðs við Barcelona á nýjan leik en það eru brasilískir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Neymar gekk til liðs við PSG frá Barcelona, sumarið 2017, en franska félagið borgaði 200 milljónir punda fyrir Neymar sem er dýrasti knattspyrnumaður heims í dag.

Brasilískir fjölmiðlar greina frá því að samningaviðræður Barcelona og PSG séu langt á veg komnar og að félögin muni tilkynna um kaup spænska félagsins á næstu vikum. Neymar fór til PSG á sínum tíma til þess að vinna Meistaradeildina en gengi liðsins í Meistaradeildinni, undanfarin tvö ár, hefur verið langt undir væntingum.

Þá greina fjölmiðlar í Brasilíu frá því að Barcelona þurfi að borga í kringum 100 milljónir punda fyrir leikmanninn, ásamt því að nokkrir leikmenn Barcelona muni ganga til liðs við PSG, í skiptum fyrir stórstjörnuna. Neymar lék með Barcelona á árunum 2013 til 2017 þar sem hann skoraði 68 mörk í 123 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert