Platini handtekinn

Michel Platini, fyrrverandi forseti UEFA, hefur verið handtekinn vegna spillingarmáls …
Michel Platini, fyrrverandi forseti UEFA, hefur verið handtekinn vegna spillingarmáls sem tengist heimsmeistaramótinu í Katar 2022. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Michel Platini, fyrrverandi forseti UEFA, hefur verið handtekinn en það eru erlendir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Ástæða handtökunnar er heimsmeistaramótið 2022 í knattspyrnu sem fram fer í Katar en Platini er sagður hafa þegið peningagreiðslur fyrir að kjósa með Katar þegar kom að því að velja leikstað fyrir HM 2022.

Platini er 63 ára gamall en hann var kosinn forseti UEFA árið 2007 og gegndi embættinu í átta ár eða til ársins 2015 þegar honum voru bönnuð öll afskipti af fótbolta af siðanefnd FIFA. Platini, sem situr nú í varðhaldi frönsku réttarfarslögreglunnar í Nanterre í París, var hliðhollur Sepp Blatter, fyrrverandi forseta FIFA, sem var dæmdur í átta ára bann frá knattspyrnu fyrir siðabrot.

Árið 2010 var Katar valið úr stórum hópi umsækjenda til þess að halda heimsmeistaramótið en valið var afar umdeilt á sínum tíma. Mikið hefur verið rætt og ritað um að Katar hafi einfaldlega „keypt“ heimsmeistaramótið þótt það hafi aldrei verið sannað. Platini var frábær knattspyrnumaður á sínum tíma og vann Gullknöttinn í þrígang á árunum 1983 til ársins 1985.

mbl.is