Vítaspyrnur og dramatík

María Þórisdóttir hefur spilað mjög vel fyrir norska kvennalandsliðið á …
María Þórisdóttir hefur spilað mjög vel fyrir norska kvennalandsliðið á heimsmeistaramótinu í Frakklandi. AFP

Noregur tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta með naumum 2:1-sigri á Suður-Kóreu í gær. Bæði mörk Norðmanna komu úr vítaspyrnum, en Suður-Kórea var heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum.

María Þórisdóttir, dóttir Þóris Hergeirssonar sem þjálfar kvennalið Noregs í handbolta, er búin að vera með betri leikmönnum Norðmanna í keppninni til þessa. Hún náði í vítaspyrnu strax á fimmtu mínútu sem Caroline Hansen skoraði úr. Hansen náði svo sjálf í víti á 51. mínútu og þá mætti Isabell Herlovsen á svæðið og tvöfaldaði forskot Noregs. Eftir það sótti Suður-Kórea án afláts og tókst að minnka muninn, en norska liðið hélt út og fagnaði sigri. Noregur mætir annað hvort Brasilíu eða Ástralíu í 16-liða úrslitunum næstkomandi laugardag.

Frakkar sluppu með skrekkinn á móti Nígeríu. Lokatölur urðu 1:0 og kom sigurmarkið úr vítaspyrnu á 79. mínútu. Varnarmaðurinn Wendie Renard, sem skoraði skrautlegt sjálfsmark gegn Noregi, fékk tvær tilraunir á punktinum. Chiamaka Nnadozie, 18 ára markmaður Nígeríu, fór af marklínunni er Rendard skaut í stöng og fékk hún að launum gult spjald og Renard aðra tilraun. Síðari tilraunin heppnaðist betur og Frakkar fara í sextán liða úrslit með fullt hús stiga. Þrátt fyrir það eru margir ósáttir við frammistöðu franska liðsins til þessa, en hún var ósannfærandi gegn Noregi í síðustu umferð og lítið skárri gegn Nígeríu. Frakkland mætir einu þeirra liða sem hafna í þriðja sæti síns riðils í næstu umferð.

Leikmenn nígerska liðsins voru niðurbrotnir að leik loknum, enda hefði jafntefli tryggt liðinu farseðilinn í 16-liða úrslitin. Þess í stað þurfa þær nígersku að treysta á önnur úrslit.

Sjá má greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert