Yrði fimmti dýrasti leikmaður heims

Joao Felix sló í gegn á síðustu leiktíð.
Joao Felix sló í gegn á síðustu leiktíð. AFP

Atlético Madríd hefur mikinn áhuga á að fá hinn 19 ára gamla Joao Felix til liðs við sig. Felix er 19 ára Portúgali sem er talinn einn efnilegasti leikmaður heims. Atlético þarf að borga 120 milljónir evra fyrir Felix, sem leikur með Benfica í heimalandinu. 

Felix sló í gegn á leiktíðinni og skoraði 15 mörk og gaf níu stoðsendingar fyrir Benfica. Felix er ætlað að fylla í það skarð hjá Atlético sem stjarnan Antoine Griezmann skilur eftir sig. Griezmann tilkynnti að hann myndi yfirgefa Atlético síðasta maí, en hann á eftir að semja við nýtt félag. 

Verði af félagsskiptum Felix verður hann fimmti dýrasti leikmaður í heims á eftir Kylian Mbappé, Philippe Coutinho, Neymar og Ousmané Démbéle. Felix lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Portúgal gegn Sviss í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar fyrr í mánuðinum. 

Felix skoraði þrennu gegn þýska liðinu Frankfurt í Evrópudeildinni í apríl og varð í leiðinni yngsti Portúgalinn og yngsti leikmaður Benfica frá upphafi til að skora þrjú mörk í sama Evrópuleiknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert