Áttum baulið ekki skilið

Thiago Silva og liðsfélagar hans í brasilíska landsliðinu voru baulaðir …
Thiago Silva og liðsfélagar hans í brasilíska landsliðinu voru baulaðir af velli í nótt. AFP

Thiago Silva, fyrirliði brasilíska landsliðsins í knattspyrnu, var ósáttur með stuðningsmenn liðsins eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Venesúela í Ameríkukeppninni í nótt. Leikurinn fór fram á Fonte Nova-vellinum í Salvador í Brasilíu en Brasilía skoraði þrjú mörk í leiknum sem öll voru dæmd af eftir VAR-myndbandsdómgæslu.

„Við áttum ekki skilið að vera baulaðir af velli. Venesúela skapaði sér ekkert í leiknum og við vorum mjög þéttir fyrir varnarlega,“ sagði Silva í samtali við fjölmiðla eftir leik. „Við áttum erfitt með að sækja hratt á því þeir vörðust svo aftarlega. Stundum vorum við að drífa okkur um of og við misstum smá sjálfstraust þegar leið á leikinn.“

„Heilt yfir þá spiluðum við samt mjög vel og leikur liðsins var góður. Okkur tókst hins vegar ekki að skora og stundum er eins og heimurinn sé að farast þegar það gerist,“ sagði Silva ennfremur en gestgjafar Brasilíu hafa farið ágætlega af stað í Ameríkukeppninni og eru með 4 stig í efsta sæti A-riðils eftir fyrstu tvær umferðirnar, jafn mörg stig og Perú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert