Platini yfirheyrður í 15 tíma

Michel Platini yfirgefur lögreglustöðina í morgun.
Michel Platini yfirgefur lögreglustöðina í morgun. AFP

Michel Platini, fyrrverandi forseti evrópska knattspyrnusambandsins UEFA, hefur verið látinn laus úr haldi frönsku lögreglunnar eftir að hafa verið handtekinn í gær og yfirheyrður vegna gruns um spillingu og að hafa þegið mútugreiðslur.

Platini var handtekinn vegna rannsóknar á því hvernig Katar var úthlutað heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu árið 2022 og gruns um að Platini hafi þegið mútur fyrir að kjósa með Katar.

Platini var yfirheyrður í 15 klukkustundir eftir því sem Sky greinir frá, en var látinn laus snemma í morgun án þess að hafa verið birt ákæra. Sjálfur hefur hann ávallt neitað því að hafa gert nokkuð rangt.

„Þetta er gamalt mál og ég hef ávallt komið hreint fram. Ég átti að koma hingað sjálfviljugur í skýrslutöku, en var handtekinn um leið. Það er sárt, en þeir sinntu sínu starfi og ég reyndi að svara öllum þeirra spurningum,“ sagði Platini við fjölmiðla eftir að hafa verið látinn laus í morgun.

Hinn 63 ára Platini var forseti UEFA á árunum 2007-2015, en voru þá bönnuð afskipti af knattspyrnu vegna brota á siðareglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Það sama á við um Sepp Blatter, fyrrverandi forseta FIFA, sem einnig hefur legið undir grun vegna úthlutunar Katar fyrir HM 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert