Þriggja leikja bann fyrir Instagram-færslu

Knattspyrnumaðurinn Neymar verður í þriggja leikja banni þegar Meistaradeildin hefst …
Knattspyrnumaðurinn Neymar verður í þriggja leikja banni þegar Meistaradeildin hefst í haust. AFP

Neymar, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins PSG, hefur verið dæmdur í þriggja leikja bann í Meistaradeildinni eftir ummæli sem hann lét falla á samfélagsmiðlinum Instagram. Ummælin lét Neymar falla eftir 3:1-tap liðsins gegn Manchester United í seinni leik liðanna sextán liða úrslitum keppninnar á Parc de Prince-vellinum í París á síðustu leiktíð.

PSG vann fyrri leik liðanna á Old Trafford 2:0 en United komast í átta liða úrslit keppninnar eftir að enska félagið fékk umdeilda vítaspyrnu á lokamínútum leiksins í París sem Marcus Rashford skoraði úr. Damir Skomina, dómari leiksins, studdist við VAR-myndbandsdómgæslu þegar hann dæmdi vítaspyrnu en dómarinn taldi að Presnel Kimpembe hefði handleikið knöttinn innan teigs.

Neymar var allt annað en sáttur með dóminn og lét til sín taka á Instagram en hann var ekki með PSG í leiknum vegna meiðsla. „Þetta er hneyksli! Það voru fjórir menn inn í einhverju herbergi sem hafa ekki hundsvit á fótbolta sem dæmdu hendi,“ sagði Neymar á Instagram. Neymar hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til Barcelona í allt sumar og gæti hann því tekið út bannið með Spánarmeisturunum á næstu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert