Þrjú mörk dæmd af Brasilíu

Brasilíumennirnir Filipe Luis og Philippe Coutinho svekktir í leiknum í …
Brasilíumennirnir Filipe Luis og Philippe Coutinho svekktir í leiknum í nótt. AFP

Það vantaði ekki dramatíkina þegar Brasilía tók á móti Venesúela í Ameríkubikarnum í knattspyrnu í nótt. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli þótt boltinn hefði þrívegis hafnað í netinu.

Brasilía, sem er gestgjafi mótsins, skoraði þrjú mörk sem öll voru dæmd af. Roberto Firmino kom boltanum í netið í fyrri hálfleik en það var dæmt af. Gabriel Jesus skoraði svo um miðjan seinni hálfleik, en það var dæmt af eftir að myndbandsupptökur (VAR) voru skoðaðar.

Philippe Coutinho virtist svo vera að tryggja Brasilíu sigurinn í lokin, en það var einnig dæmt af eftir að myndbandsupptökur voru skoðaðar. Niðurstaðan markalaust jafntefli, en áhorfendur bauluðu á Brasilíumenn þegar þeir gengu af velli.

„Við verðum að skilja að stuðningsmennirnir vilja sjá mörk. Ef ég hefði verið á meðal áhorfenda þá hefði ég líka viljað baula á okkur. Ákvörðunin með VAR var hárrétt, við getum ekki kvartað yfir neinu,“ sagði Tite, landsliðsþjálfari Brasilíu, eftir leikinn.

Brasilía er enn á toppi síns riðils með fjögur stig eftir tvo leiki eftir sigur á Bólivíu í fyrsta leik.

Þá vann Perú 3:1-sigur á Bólivíu og er með fjögur stig eins og Brasilía í A-riðlinum. Síle vann svo öruggan 4:0-sigur á Japan í fyrsta leik þeirra í C-riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert