England áfram eftir mikil læti

Ellen White skorar annað mark Englendinga.
Ellen White skorar annað mark Englendinga. AFP

England er komið áfram í átta liða úrslit heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta eftir 3:0-sigur á Kamerún í Valenciennes í dag. 

Enska liðið komst yfir með marki Stephanie Houghton á 14. mínútu og Ellen White bætti við marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Aðstoðardómari flaggaði rangstöðu en eftir myndbandsdómaraúrskurð var markið látið standa. 

Leikmenn Kamerún voru allt annað en sáttir við niðurstöðuna og neituðu að taka miðju í kjölfarið. Eftir mikla reikistefnu hófst leikurinn loks á ný og var staðan í hálfleik 2:0. 

Lætin minnkuðu ekki á 49. mínútu er Ajara Nchout skoraði en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Langan tíma tók að hefja leik á ný vegna kröftugra mótmæla hjá leikmönnum og þjálfarateymi Kamerún. 

England gulltryggði hins vegar 3:0-sigur á 58. mínútu er Alex Greenwood skoraði. Enska liðið hefði átt að fá vítaspyrnu undir lokin, en Liang Qin, kínverskur dómari leiksins, dæmdi hins vegar ekki neitt, þrátt fyrir að skoða myndband enn á ný.

Augljóslega var brotið á Fran Kirby innan teigs, en svo virtist sem dómarinn þorði ekki að dæma gegn Kamerún eftir fyrrnefnd læti. 

Enn og aftur var myndbandsdómgæsla í aðalhlutverki í keppninni og ekki á jákvæðan hátt. England fagnaði þrátt fyrir það sæti í átta liða úrslitum þar sem Noregur bíður. Leikurinn fer fram í Le Havre þann 27. júní. 

Illa gekk að hugga Ajara Nchout eftir að hún skoraði …
Illa gekk að hugga Ajara Nchout eftir að hún skoraði ógilt mark. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert