Marta biðlaði til ungra knattspyrnukvenna

Marta var að öllum líkindum að spila á sínu síðasta …
Marta var að öllum líkindum að spila á sínu síðasta heimsmeistaramóti. AFP

Brasilíska knattspyrnukonan Marta Vieira da Silva, betur þekkt sem Marta, var að öllum líkindum að spila á sínu síðasta heimsmeistaramóti á dögunum. Marta var í byrjunarliði Brasilíu sem féll úr leik gegn Frakklandi í sextán liða úrslitum HM eftir 2:1-tap á Océane-vellinum í Le Havre í gær í framlengdum leik.

Þetta var fimmta heimsmeistaramótið sem Marta spilar á en hún er orðin 33 ára gömul. Marta mætti í viðtal eftir leik í gær þar sem hún hvatti ungar knattspyrnukonur til þess að halda áfram baráttunni fyrir kvennaboltanum en Marta hefur sex sinnum verið valin besta knattspyrnukona heims á ferli sínum.

„Þetta snýst um að vilja meira, æfa meira og hugsa betur um sjálfan sig. Þú þarft að vera tilbúin að leggja mikið á þig og spila í 120. mínútur eins og við gerðum í dag. Þetta er það sem ég vil biðja ungar knattspyrnustúlkur um að leggja áherslu á á komandi árum,“ sagði Marta eftir tapið gegn Frökkum.

„Formiga verður ekki til að eilífu, Marta verður ekki til að eilífu og Cristiane verður ekki til að eilífu. Kvennaknattspyrnan þarf á ykkur að halda ef við ætlum okkur að lifa af. Þetta er eitthvað til þess að hugsa um og njótið þess á meðan þið getið. Grátið í upphafi ferilsins svo þið getið brosað að honum loknum,“ sagði Marta klökk að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert