Skellir skuldinni á Messi

Louis van Gaal telur að slæmt gengi Barcelona í Meistaradeildinni …
Louis van Gaal telur að slæmt gengi Barcelona í Meistaradeildinni sé Messi að kenna. AFP

Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United og Barcelona, gagnrýndi Lionel Messi á dögunum fyrir leiðtogahæfileika sína. Messi er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar en hann hefur borið fyrirliðabandið hjá Barcelona frá því að Andreas Iniesta yfirgaf félagið sumarið 2018.

Van Gaal telur að árangur Barcelona í Meistaradeildinni á undanförnum árum hafi verið undir væntingum og telur Messi eiga stóra sök á því. „Messi er frábær leikmaður og hann getur breytt leikjum upp á eigin spýtur. Hann er besti leikmaður í heimi og það þarf ekki annað en að skoða tölfræðina hans til þess að bakka það upp,“ sagði Van Gaal í samtali við spænska miðilinn El Pais.

„Af hverju hefur Barcelona ekki unnið Meistaradeildina með Messi innanborðs síðan árið 2015? Hann hefur verið fyrirliði liðsins undafarin ár og hann hlýtur að spyrja sig af hverju liðið hefur ekki orðið Evrópumeistari á síðustu fjórum árum. Barcelona er með frábæran leikmannahóp, Rakitic, Coutinho, Alba, Ter Stegen, Vidal. Þetta eru allt frábærir knattspyrnumenn.“

„Messi ber ábyrgð á því sem er að gerast hjá Barcelona þessa dagana, ekki bara þjálfari liðsins. Leikmenn bera meiri ábyrgð en fólk gerir sér grein fyrir og ef gengið er slæmt er ekki alltaf hægt að skella skuldinni á þjálfarana. Messi er stór hluti af Barcelona og sökin liggur hjá honum,“ sagði Van Gaal enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert