Cavani hetja Úrúgvæ gegn Síle

Edinson Cavani fagnar sigurmarki sínu gegn Síle í nótt.
Edinson Cavani fagnar sigurmarki sínu gegn Síle í nótt. AFP

Edinson Cavani reyndist hetja Úrúgvæ þegar liðið vann 1:0-sigur gegn Síle í C-riðli Ameríkubikarsins í knattspyrnu á Maracana-vellinum í Ríó í Brasilíu í nótt. Cavani skoraði sigurmark leiksins 82. mínútu og tryggði þar með Úrúgvæ efsta sæti C-riðils en liðið endar með 7 stig á toppi riðilsins á meðan Síle er í öðru sætinu með 6 stig.

Þá gerðu Japan og Ekvador 1:1-jafntefli á Mineirao-vellinum í Minas Gerais. Shoya Nakajima kom Japan yfir á 15 mínútu en Angel Mena jafnaði metin fyrir Ekvador á 35. mínútu og þar við sat. Japan er í þriðja sæti riðilsins með 2 stig á meðan Ekvador er í neðsta sætinu með 1 stig.

Úrúgvæ og Síle fara því áfram í átta liða úrslitin en Japan og Ekvador eru úr leik. Úrúgvæ mætir Perú í átta liða úrslitum en Síle mætir Kólumbíu.

mbl.is