„Þessi leikur situr enn þá í mér“

María Þórisdóttir og liðsfélagar hennar í norska landsliðinu mæta Englandi …
María Þórisdóttir og liðsfélagar hennar í norska landsliðinu mæta Englandi í átta liða úrslitum HM á morgun. AFP

Knattspyrnukonan María Þórisdóttir hefur spilað mjög vel á heimsmeistaramótinu í Frakklandi með norska landsliðinu en liðið er komið alla leið í átta liða úrslit keppninnar þar sem Noregur mætir Englandi á Océane-vellinum í Le Havre á morgun.

Liðin mættust einnig í sextán liða úrslitum HM 2015 sem fram fór í Kanada en þar tapaði norska liðið 2:1 og viðurkennir María að tapið sitji enn þá í henni. „Ég var hrikalega vonsvikin eftir þann leik og tapið situr enn þá í mér. Ég var ung og það var mjög erfitt að taka þessu,“ sagði María í samtali við heimasíðu FIFA en hún var 22 ára þegar Noregur féll úr leik í Kanada.

„Við vorum með fulla stjórn á leiknum en svo skora þær tvö mörk í seinni hálfleik og við misstum aðeins fæturna. Það verður gaman að mæta þeim aftur og núna ætlum við okkur sjálfsögðu að gera betur en í Kanada. Við erum reynslunni ríkari og erum samheldnara lið en við vorum þá. Við erum betri í að halda boltanum og það mun nýtast okkur vel í leiknum gegn Englandi,“ sagði María enn fremur.

mbl.is