Fjögur íslensk mörk í Noregi

Aron Sigurðarson í leik með Start.
Aron Sigurðarson í leik með Start. Ljósmynd/Heimasíða Start

Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni í dag er leikið var í norsku úrvals- og fyrstu deildinni í knattspyrnu í dag. Þá skoruðu þrír Íslendingar fjögur mörk sín á milli.

Samúel Kári Friðjónsson skoraði mark Vikings í 1:1-jafntefli gegn Mjöndalen í úrvalsdeildinni og spilaði hann allan leikinn en Dagur Dan Þórhallsson sat á varamannabekk heimamanna í Mjöndalen. Þá lagði Matthías Vilhjálmsson upp eitt marka Vålerenga sem vann 4:1-útisigur gegn Haugesund en hann var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn.

Arnór Smárason átti svo fínan leik fyrir Lilleström áður en hann var tekinn af velli á 60. mínútu. Hann lagði upp fyrstu tvö mörk liðsins í 4:0-heimasigri á Tromsö í mikilvægum leik í neðri hluta töflunnar.

Aron Sigurðarson átti afar fínan leik með Start gegn Tromsdalen í fyrstu deildinni. Hann kom gestunum yfir á 10. mínútu og svo aftur á þeirri 55. en Start vann 3:1-sigur og er nú í 6. sæti. Aron spilaði allan leikinn en samherji hans, Kristján Flóki Finnbogason var tekinn af velli á 56. mínútu.

Að lokum skoraði Hólmbert Aron Friðjónsson fyrir topplið Aalesund í 3:1-heimasigri gegn Sandnes Ulf. Hólmbert skoraði mark sitt á 9. mínútu en fór svo meiddur af velli rúmum tíu mínútum síðar. Þeir Daníel Leó Grétarsson, Davíð Kristján Ólafsson og Aron Elís Þrándarson léku allir í 90 mínútur fyrir Aalesund. Viðar Ari Jónsson og félagar í Sandefjord eru svo í öðru sæti en þeir unnu 2:0 á útivelli gegn Jerv í dag. Viðar lék allan leikinn.

Samúel Kári Friðjónsson
Samúel Kári Friðjónsson mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is