Þriggja stjörnu Samúel

Samúel Kári Friðjónsson í leik með 21-árs landsliði Íslands.
Samúel Kári Friðjónsson í leik með 21-árs landsliði Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Norska ríkissjónvarpið, NRK, valdi Samúel Kára Friðjónsson mann leiksins í dag þegar lið hans, Viking frá Stavanger gerði jafntefli, 1:1, við Mjøndalen á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

NRK gefur á vef sínum þremur leikmönnum stjörnur, eina til þrjár, og Samúel var þriggja stjörnu maður þessa leiks að þeirra mati.

Hann skoraði mark Viking í leiknum með glæsilegu skoti í þverslána og inn en með því kom hann liðinu yfir á 38. mínútu leiksins. Þetta er fyrsta mark Samúels fyrir Viking í deildinni en hann kom þangað sem lánsmaður frá Vålerenga fyrir tímabilið og hefur verið í byrjunarliði í öllum 12 leikjum liðsins í deildinni. Þar eru Víkingarnir í sjötta sæti af sextán liðum en þeir leika á ný í úrvalsdeildinni í ár eftir eins árs fjarveru.

mbl.is