Aron kominn til Hammarby

Aron Jóhannsson fagnar marki í leik með Werder Bremen.
Aron Jóhannsson fagnar marki í leik með Werder Bremen. AFP

Aron Jóhannsson er orðinn leikmaður sænska knattspyrnufélagsins Hammarby frá Stokkhólmi en félagið tilkynnti um komu hans þangað rétt í þessu. Hann hefur skrifað undir samning við félagið til þriggja ára.

Aron, sem er 28 ára gamall og hefur leikið 19 landsleiki fyrir Bandaríkin, var laus allra mála í vor hjá Werder Bremen í Þýskalandi en þar var hann í fjögur tímabil og átti við meiðsli að stríða stóran hluta þess tíma.

Áður lék hann með AZ Alkmaar í Hollandi, AGF í Danmörku og með uppeldisfélagi sínu Fjölni fyrstu árin í meistaraflokki, frá 2008 til 2010.

„Ég er mjög ánægður með að koma til Hammarby og að vera kominn í félag sem er með svona mikinn fjölda stuðningsmanna. Nú mun ég leggja mjög hart að mér til að komast í form til að spila og vonast til þess að geta sem fyrst hjálpað samherjum mínum innni á vellinum og skora mörk fyrir þá," segir Aron við vef Hammarby.

Hammarby er í 7. sæti af sextán liðum sænsku úrvalsdeildarinnar að fjórtán umferðum loknum. Viðar Örn Kjartansson er í láni hjá félaginu frá Rostov í Rússlandi en ólíklegt er að hann spili áfram með liðinu eftir að lánsdvölinni lýkur um miðjan þennan mánuð.

mbl.is