Brotið á Arnóri tilkynnt til aganefndar

Arnór Ingvi Traustason
Arnór Ingvi Traustason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sænska knattspyrnufélagið Malmö hefur tilkynnt Haris Radetinac, leikmann Djurgården, til aganefndar sænsku deildarinnar vegna brotsins á Arnóri Ingva Traustasyni í leik liðanna í gær. 

Radetinac braut afar illa á Arnóri undir lok fyrri hálfleiks með þeim afleiðingum að Arnór var borinn af velli. Mikið mildi þykir að Arnór sé ekki fótbrotinn, en hann gæti þó verið frá í einhvern tíma vegna meiðslanna. 

Þrátt fyrir ljótt brot, fékk Radetinac ekki einu sinni gult spjald frá dómara leiksins og við það voru forráðamenn Malmö ósáttir.

„Malmö mun tilkynna ofbeldisfulla tæklingu á Arnóri Traustasyni í leik gegn Djurgården í gær. Félagið er ekki ánægt með að sá brotlegi komst upp með þessa tæklingu," sagði talsmaður Malmö í samtali við Sydsvenskan. 

Radetinac sagði sjálfur í viðtali eftir leik að um slys hafi verið að ræða. „Ég hef sagt það nokkrum sinnum að ég ætlaði ekki að brjóta svona á honum. Vonandi veit Arnór það líka. Ég hef sjálfur meiðst illa og ég myndi aldrei meiða andstæðing viljandi," sagði hann. 

Uwe Rösler, knattspyrnustjóri Malmö, var ekki sáttur í leikslok. „Þetta var mjög slæm tækling, virkilega slæm tækling. Vonandi hefur hún afleiðingar," sagði Þjóðverjinn við fjölmiðla. 

Bosse Andersson yfirmaður íþróttamála hjá Djurgården var hins vegar ekki sáttur við ákvörðun Malmö um að tilkynna atvikið sérstaklega til aganefndar. „Mín skoðun er sú að ákvarðanir í fótbolta eiga fara fram á vellinum, en ekki á skrifborði eftir leik," sagði Bosse Andersson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert