„Gat ekki horft á þetta aftur“

Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason. Ljósmynd/Malmö

„Ég óttaðist það versta en það er jákvætt að það sást ekkert brot í fætinum eftir myndatökuna sem ég fór í í morgun,“ sagði landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason í samtali við mbl.is en hann meiddist illa í leik með Malmö í gær eftir fólskulegt brot leikmanns Djurgården.

„Læknarnir halda að liðböndin séu illa farin en ég fer í frekari myndatöku á morgun og þá kemur þetta betur í ljós. Ég dofnaði allur upp þegar hann braut á mér og ég óttaðist að um fótbrot hefði verið að ræða. Ég er því þokkalega ánægður að svo reyndist ekki vera. Þetta var ljótt og heimskulegt brot. Ég er búinn að horfa á þetta einu sinni á myndbandi og ég gat ekki horft á það aftur,“ sagði Arnór, sem hefur átt góðu gengi að fagna með toppliði Malmö og hefur spilað alla leiki liðsins í deildinni á tímabilinu.

Hugað að meiðslum Arnór Ingva í gær.
Hugað að meiðslum Arnór Ingva í gær. Ljósmynd/Malmö

Spurður hvenær hann reikni með að geta byrjað að spila á nýjan leik sagði Arnór:

„Læknarnir vilja ekki gefa upp neinn tíma í þessu sambandi. Þetta gerðist bara í gær og fóturinn er ennþá stokkbólginn. Núna þarf bara að greina meiðslin til hlítar en þeir segja mér að þetta sé alvarlegur liðbandsskaði og það er auðvitað ekkert skemmtilegt. Meiðsli eru partur af íþróttunum og nú er bara það eina í stöðunni að vera jákvæður, koma ennþá sterkari til baka og huga að öðrum líkamshlutum í leiðinni á meðan maður er meiddur. Endurhæfingin hefst strax í kvöld og ég er með góða menn sem hjálpa mér í því. Ég er í mjög góðum höndum,“ sagði Arnór Ingvi.

Mynd­skeið af at­vik­inu má sjá HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert