Viðar kvaddi með dramatísku sigurmarki

Viðar Örn Kjartansson gerði það gott með Hammarby.
Viðar Örn Kjartansson gerði það gott með Hammarby. Ljósmynd/Hammarby

Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmaður í knattspyrnu, kvaddi heldur betur með stæl þegar hann spilaði sinn síðasta leik með sænska liðinu Hammarby í kvöld. Hann er á láni frá Rostov í Rússlandi og rennur sá lánssamningur út á miðnætti.

Viðar Örn og félagar í Hammarby heimsóttu Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Eftir klukkutíma leik var staðan 2:2 og allt stefndi í jafntefli. Á annarri mínútu uppbótartímans skoraði hins vegar Viðar Örn sigurmark Hammarby á sínum síðustu mínútum með liðinu og tryggði 3:2 sigur. Þetta var sjöunda mark hans í 15. leiknum í deildinni í ár, en þeir verða ekki fleiri um sinn.

Aron Jóhannsson, sem gekk í raðir Hammarby í síðustu viku, var ekki í leikmannahópnum í kvöld. Hammarby fór með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar og er þar með 25 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert