Viðar segir framtíðina ljósa á næstu dögum

Viðar Örn Kjartansson fagnar með Hammarby.
Viðar Örn Kjartansson fagnar með Hammarby. Ljósmynd/Hammarby

„Ég veit ekki betur en að þetta hafi verið minn síðasti leikur, allavega í bili, og ég vildi skora,“ sagði Viðar Örn Kjartansson, landsliðsframherji í knattspyrnu, eftir að hafa skorað dramatísk sigurmark fyrir Hammarby í uppbótartíma í sigri á Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld, 3:2.

Viðar Örn er á láni hjá Hammarby frá Rostov í Rússlandi og rennur sá lánssamningur út á miðnætti. Hann kveður því Hammarby með sjö deildarmörk í 15 leikjum.

„Ég veit ekki betur en að ég sé að fara aftur til Rússlands á morgun eða á miðvikudaginn. Ég mun ræða við stjórnina þar en það mun koma í ljós á næstu 4-5 dögum hvar ég mun spila næst. Ég veit ekkert núna, en þetta kemur í ljós á næstu dögum,“ sagði Viðar Örn við Fotbollskanalen eftir leikinn.

„Ég kann vel við mig hjá Hammarby. Auðvitað myndi ég vilja vera áfram, en ég er á samning hjá Rostov og þetta er undir þeim komið,“ sagði Viðar Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert