Hollenskar goðsagnir fengu reisupassann

Patrick Kluivert og Clarence Seedorf eru atvinnulausir.
Patrick Kluivert og Clarence Seedorf eru atvinnulausir. AFP

Hollensku goðsagnirnar Clarence Seedorf og Patrick Kluivert voru í dag reknir sem þjálfarar kamerúnska karlalandsliðsins í fótbolta. Kamerún féll óvænt úr leik í 16-liða úrslitum Afríkukeppninnar fyrr í mánuðinum. 

Kamerún tapaði fyrir Nígeríu í 16-liða úrslitum, 3:2, en liðið var ekki sannfærandi í riðlakeppninni. Seedorf var aðalþjálfari liðsins og Kluivert aðstoðarmaður hans. 

Þeir tóku við liðinu í ágúst á síðasta ári. Seedorf stýrði Deportivo La Coruna á Spáni, Shenzhen frá Kína og AC Milan áður en hann tók við Kamerún.

Kluivert var m.a yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG og þjálfari unglingaliðs Ajax áður en hann hóf störf hjá Kamerún.

Kamerún er ríkjandi Afríkumeistari eftir 2:1-sigur á Egyptalandi árið 2017. Senegal og Alsír mætast í úrslitum Afríkukeppninnar í ár á föstudaginn kemur. 

mbl.is