Maribor of sterkt og Ludogorets bíður Vals

Valur er úr leik í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 2:0-tap gegn Maribor frá Slóveníu á útivelli í síðari leik liðanna í kvöld. Maribor vann fyrri leikinn 3:0 og einvígið samanlagt 5:0. 

Maribor er með mun dýrari og sterkari leikmannahóp og það sást í kvöld. Rok Kronaveter, sem skoraði í fyrri leiknum, kom Maribor yfir á elleftu mínútu með skoti úr teignum eftir góðan undirbúning Dino Hotic. 

Brasilíumaðurinn Marcos Tavares tvöfaldaði forskot Maribor eftir rúmlega hálftíma leik. Hann átti þá ekki í miklum vandræðum með að leika á Orra Sigurð Ómarsson og skila boltanum í bláhornið niðri. 

Valsmenn náðu ekki að skapa sér mikið í fyrri hálfleik. Einar Karl Ingvarsson átti ágæta tilraun skömmu fyrir leikhlé en skaut í varnarmann Maribor úr fínu færi. Örskömmu síðar átti Ívar Örn Jónsson skot hátt yfir. 

Maribor var mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og mörkin hefðu getað orðið fleiri. Varamaðurinn Rudi Pozeg skallaði m.a hárfínt framhjá úr markteignum. Valsmenn náðu hins vegar að verjast ágætlega það sem eftir lifði leiks og 5:0-sigur Maribor varð raunin. 

Valsmenn falla því niður í undankeppni Evrópudeildarinnar þar sem áttfaldir Búlgaríumeistarar Ludorgorets bíða. Ludogorets hefur verið í riðlakeppni Evrópu- eða Meistaradeildarinnar síðustu fimm ár og er líklega með sterkara lið en Maribor. 

Ludogorets tapaði óvænt fyrir Ferencváros í Meistaradeildinni, samanlagt 5:3. Síðari leikurinn fór fram í Búlgaríu í kvöld og fór Ferencváros með 3:2-sigur af hólmi. 

Maribor 2:0 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið Maribor er mun betra lið en Valur og það sást í þessu einvígi. Valsmenn mæta Ludogorets frá Búlgaríu í Evrópudeildinni. Maribor mætir Kolbeini Sigþórssyni og AIK í Meistaradeildinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert