Staðfesta að Kristján er á leið í KR

Kristján Flóki Finnbogason,
Kristján Flóki Finnbogason, Ljósmynd/Start

Norska B-deildarliðið Start staðfestir á heimasíðu sinni að það hafi náð samkomulagi við KR um félagskipti framherjans Kristjáns Flóka Finnbogasonar til KR.

Kristján Flóki mun spila þrjá leiki til viðbótar með Start áður en hann gengur í raðir KR sem kaupir hann frá norska liðinu. Hann gekk í raðir Start frá FH fyrir tveimur árum en FH-ingar voru einnig á höttunum eftir framherjanum. Á facebook-síðu KR kemur fram að Kristján hafi samið við KR út tímabilið 2023 og sé væntanlegur til landsins þann 29. þessa mánaðar.

„Ég hef tvö góð ár hér þótt gengið hafi verið upp og niður. En ég hef lært mikið sem á eftir að hjálpa mér í framtíðinni. Ég á eftir að fylgjast með Start á leið sinni að verða eitt af bestu liðunum í Noregi. Nú mun ég gefa allt mitt í þrjá síðustu leikina og vonandi get ég lokið tíma mínum með nokkrum mörkum og eins mörgum stigum og mögulegt er,“ segir Kristján Flóki á vef Start.

Kristján Flóki er 24 ára gamall uppalinn FH-ingur. Hann hefur spilað 55 leiki með FH í efstu deild og hefur í þeim skorað 16 mörk. Hann skoraði 8 mörk í 14 leikjum með FH í Pepsi-deildinni sumarið 2017 áður en hann var seldur til Start.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert