Willum meiddist í upphitun í Meistaradeild

Willum Þór Willumsson.
Willum Þór Willumsson. mbl.is/Árni Sæberg

Willum Þór Willumsson gat ekki leikið með liði BATE Borisov í kvöld þegar liðið komst áfram í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Willum átti að vera í byrjunarliðinu en meiddist í upphitun.

BATE mætti Piast Gliwice á útivelli og eftir að hafa lent undir skoraði liðið tvö mörk á fimm mínútna kafla í blálokin, tryggði sér 2:1-útisigur og vann einvígið samanlagt 3:2. BATE mætir norska liðinu Rosenborg í næstu umferð.

Rúnar Már Sigurjónsson var í byrjunarliði Astana frá Kasakstan sem heimsótti CFR Cluj til Rúmeníu. Rúnar fór af velli á 82. mínútu fyrir Astana sem tapaði leiknum 3:1 og einvíginu 3:2. Astana fer nú í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og mætir Santa Coloma frá Andorra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert