Barcelona gerir tilboð í Neymar

Neymar virðist vera á förum frá Paris SG.
Neymar virðist vera á förum frá Paris SG. AFP

Barcelona, spænsku meistararnir í knattspyrnu, hafa gert Paris SG tilboð í brasilíska sóknarmanninn Neymar, samkvæmt Sky Sports.

Tilboðið er sagt hljóða upp á 100 milljón evrur og tvo leikmenn að auki en Sky Sports segir að PSG geti valið úr hópi sex leikmanna Barcelona og fimm þeirra séu Philippe Coutinho, Ousmane Dembélé, Ivan Rakitic, Nelson Semedo og Malcom.

Talið er að PSG vilji fá meira en 200 milljón evrur fyrir leikmanninn sem Barcelona seldi franska félaginu árið 2017 fyrir 222 milljón evrur og er frá þeim tíma dýrasti knattspyrnumaður heims.

Leonardo, íþróttastjóri PSG, sagði í síðustu viku að Neymar gæti farið frá félaginu ef í hann kæmi tilboð sem hentaði öllum, og staðfesti þá jafnframt að rætt hefði verið við Barcelona.

Sky Sports sagði fyrr í þessari viku að Neymar hefði sagt forráðamönnum PSG fyrr í sumar að hann vildi fara frá félaginu og Tomas Tuchel knattspyrnustjóri viðurkenndi að Brasilíumaðurinn hefði lýst yfir áhuga sínum á að fara annað áður en Ameríkubikarinn hófst í síðasta mánuði. Neymar náði ekki að leika þar með Brasilíu vegna ökklameiðsla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert