Úlfarnir unnu meistarana í Asíu

Leroy Sane og Ruben Neves teygja sig í boltann í …
Leroy Sane og Ruben Neves teygja sig í boltann í Asíu í dag. AFP

Wolves hreppti gullverðlaunin í Asíubikarnum í knattspyrnu í Shanghai í Kína í dag með því að vinna Englandsmeistara Manchester City 3:2 í vítaspyrnukeppni. Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma. Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport.

Newcastle vann bronsverðlaunin fyrr í dag með 1:0-sigri gegn West Ham en ekkert mark leit dagsins ljós í venjulegum leiktíma í úrslitaleiknum. Englandsmeistararnir hófu leikinn af krafti og fengu kjörið tækifæri til að taka forystuna á 21. mínútu þegar Adama Traoré braut á Leroy Sané inn í vítateig. Raheem Sterling fór á punktinn en þrumaði hátt yfir markið.

Úlfarnir færðu sig upp á skaftið eftir því sem leið á leikinn en ekki tókst þó að setja knöttinn í netið og átti það eftir að reynast áfram erfitt í vítaspyrnukeppninni. Ryan Bennett var sá eini sem nýtti vítaspyrnu sína af fyrstu fimm sem teknar voru. Danilo og Aleix Garcia skoruðu úr næstu vítum sínum fyrir City og sömuleiðis skoruðu Ruben Vinagre og Taylor Perry fyrir Wolves. Rui Patricio varði svo úrslitavítið frá Lukas Nmecha til að tryggja Úlfunum sigur og gullið á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert