Rúrik raðar inn mörkum

Rúrik Gíslason í leik með Sandhausen.
Rúrik Gíslason í leik með Sandhausen. Ljósmynd/svs1916.de

Rúrik Gíslason landsliðsmaður í knattspyrnu var enn á skotskónum með þýska liðinu Sandhausen í gær þegar það mætti Paderborn í síðasta æfingaleik undirbúningstímabilsins í Þýskalandi.

Rúrik skoraði eitt marka Sandhausen í 3:2 sigri og hefur þar með skorað í fjórum leikjum í röð, alls sex mörk af þeim tíu mörkum sem liðið hefur skorað, en hann gerði þrennu í leik um daginn. 

Þjálfari Sandhausen hefur í þessum leikjum teflt Rúrik fram í nýrri stöðu sem sóknarmanni og það hefur skilað góðum árangri.

Sandhausen sækir Holstein Kiel heim í fyrstu umferð þýsku B-deildarinnar um næstu helgi en Holstein hitaði upp fyrir hann með tapi gegn enska B-deildarliðinu Sheffield Wednesday, 2:3, í dag. Sandhausen hafnaði í fimmtánda sæti af átján liðum í deildinni í fyrra og slapp við fall eftir erfiða stöðu lengi vel. Rúrik hefur leikið hálft annað tímabil með Sandhausen eftir að hann kom þangað frá Nürnberg í ársbyrjun 2018.

mbl.is