Tap í fyrsta leiknum hjá Hazard

Jeróme Boateng varnarmaður Bayern og Karim Benzema sóknarmaður Real Madrid …
Jeróme Boateng varnarmaður Bayern og Karim Benzema sóknarmaður Real Madrid í leiknum í nótt. AFP

Belgíski knattspyrnumaðurinn Eden Hazard mátti þola ósigur í fyrsta leik sínum með Real Madrid en spænska félagið tapaði fyrir Bayern München 3:1 í nótt þegar liðin mættust á alþjóðlega mótinu Champions Cup í Houston í Texas.

Sigurinn var sannfærandi hjá Bayern sem komst í 3:0 með mörkum frá Corentin Tolisso, Robert Lewandowski og Serge Gnabry áður en brasilíski táningurinn Rodrygo náði að svara fyrir Real Madrid með flottu skoti beint úr aukaspyrnu.

Sven Ulreich markvörður Bayern var rekinn af velli tíu mínútum fyrir leikslok fyrir að brjóta á Rodrygo utan vítateigs.

Real Madrid keypti Hazard af Chelsea í sumar fyrir 89 milljónir punda. Auk hans léku Rodrygo, Luka Jovic og Ferland Mandy allir sinn fyrsta leik með Real Madrid. Lítið fór fyrir Hazard og honum var skipt af velli í hálfleik eins og mörgum öðrum.

mbl.is