Vonum að hann fari sem fyrst

Gareth Bale í landsleik með Wales í sumar.
Gareth Bale í landsleik með Wales í sumar. AFP

Velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Real Madrid en Zinedine Zidane knattspyrnustjóri félagsins staðfesti í nótt að hann væri á förum.

Bale kom ekki við sögu í nótt þegar Real Madrid tapaði 3:1 fyrir Bayern München á alþjóðlega mótinu Champions Cup í Houston i Texas.

Zidane sagði við fréttamenn eftir leikinn að ástæðan væri sú að hann væri á förum frá félaginu.

„Við vonum að hann fari sem fyrst, það er best fyrir alla. Við erum að semja um sölu á honum til nýs félags. Ég hef ekkert á móti Bale en stundum eru hlutirnir þannig að það þarf að breyta til. Ég tek ákvarðarnirnar og við þurfum breytingar. Brottför hans er mín ákvörðun, og líka leikmannsins sem veit hver staðan er. Þetta mun gerast fljótlega, ég veit ekki hvort það taki einn eða tvo sólarhringa, en það verður og er best fyrir alla," sagði Zidane.

Bale varð þrítugur í síðustu viku en hann hefur leikið með Real Madrid í sex ár, frá því hann var keyptur af Tottenham sumarið 2013 fyrir 100 milljón evrur, sem þá gerði hann að dýrasta knattspyrnumanni heims. Hann hefur skorað 78 mörk í 155 leikjum með liðinu í spænsku 1. deildinni og samtals 102 mörk í 231 mótsleik. 

Bale hefur fjórum sinnum orðið Evrópumeistari með Real Madrid, einu sinni spænskur meistari og einu sinni spænskur bikarmeistari, og þá hefur hann þrívegis unnið heimsmeistaramót félagsliða með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert