Mörkin gerðu þrautagönguna þess virði

Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki sínu gegn Frökkum á EM 2016. …
Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki sínu gegn Frökkum á EM 2016. Það var síðasta landsliðsmark hans þar til nú á dögunum. AFP

„Tilfinningin er mjög góð að vera loksins búinn að skora aftur í deildarleik. Það var orðið ansi langt síðan ég skoraði og það gerðist síðast á EM í Frakklandi þannig að það var ákveðinn léttir að ná að koma þessu til hliðar og nú er bara að byggja ofan á þetta og halda áfram á sömu braut,“ sagði knattspyrnumaðurinn Kolbeinn Sigþórsson, framherji AIK í sænsku úrvalsdeildinni, í samtali við Morgunblaðið.

Kolbeinn skoraði tvívegis í 3:0-heimasigri AIK gegn Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni um næstsíðustu helgi en þetta voru fyrstu deildarmörk framherjans í tæp fjögur ár. Kolbeinn skoraði síðast deildarmark hinn 4. nóvember 2015 í deildarleik með franska liðinu Nantes gegn Nice en framherjinn hefur glímt við erfið hnémeiðsli sem héldu honum frá keppni í tvö og hálft ár. Þegar hann loksins varð heill heilsu fékk hann ekkert að spila með Nantes en þrátt fyrir það segir framherjinn að markaþurrðin hafi ekki setið í sér.

Efaðist aldrei

„Ég get ekki sagt að þetta hafi setið eitthvað þungt í mér. Eins og þetta hefur horft við mér hefur þetta í raun bara haldist í hendur við leikform og annað sem er hægt og rólega að koma aftur. Ég er í raun bara að koma mér aftur inn í ákveðna hluti og formið á mér verður betra með hverjum mánuðinum sem líður. Ég hef verið að fá fleiri mínútur með liðinu upp á síðkastið og þetta hjálpar allt saman. Ég efaðist aldrei um það að ég gæti skorað mörk þótt það sé alltaf betra að skora reglulega þegar maður spilar sem framherji.“

Ítarlegt viðtal við Kolbein má finna á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert