Skref upp á við fyrir fjölskylduna

Theódór Elmar Bjarnason mun skrifa undir tveggja ára samning við …
Theódór Elmar Bjarnason mun skrifa undir tveggja ára samning við tyrkneska B-deildarfélagið Akhisarspor síðar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég get staðfest það að ég er að skipta um félag í Tyrklandi og ég reikna með því að skrifa undir samning síðar í dag,“ sagði knattspyrnumaðurinn Theodór Elmar Bjarnason í samtali við mbl.is í morgun. Elmar mun skrifa undir tveggja ára samning við tyrkneska B-deildarfélagið Akhisarspor en hann kemur til félagsins frá Gazisehir Gaziantep sem tryggði sér sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni síðasta vor.

„Fyrrverandi þjálfarinn minn hjá Gazisehir Gaziantep var rekinn eftir tímabilið og hann tók við Akhisarspor stuttu síðar. Hann hafði samband við mig og vildi fá mig yfir. Ég settist niður með nýráðnum þjálfara Gazisehir Gaziantep sem tjáði mér það að hann ætlaði að fá inn fimm nýja miðjumenn í sumar og að spilatími minn yrði takmarkaður á næstu leiktíð. Akhisarspor bauð mér tveggja ára samning og sömu laun og ég átti eitt ár eftir af samningi mínum við Gazisehir Gaziantep þannig að þetta var í raun aldrei spurning,“ sagði Elmar í samtali við mbl.is.

Akhisarspor hafnaði í neðsta sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en Elmar á von á því að liðið fari beint upp aftur. Liðið lék til úrslita í tyrknesku bikarkeppninni síðasta vor þar sem Akhisarspor tapaði 3:1 fyrir Galatasaray.

Theodór Elmar Bjarnason í leik með Gazisehir Gaziantep á síðustu …
Theodór Elmar Bjarnason í leik með Gazisehir Gaziantep á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Gazisehir Gaziantep

Markmiðið að fara beint upp aftur

„Þetta er hörkulið sem ég er að semja við og ég á von á því að Akhisarspor sé að fara beint upp aftur. Það hefði vissulega verið gaman að taka slaginn með Gazisehir Gaziantep í úrvalsdeildinni en lenskan hérna úti er í þá áttina að þegar lið fara upp um deild verða miklar breytingar á leikmannahópunum, sérstaklega þegar nýr þjálfari tekur við. Akhisarspor hefur farið tvö ár í röð í bikarúrslit og fyrsti leikurinn minn verður væntanlega gegn Galatasaray í haust í leiknum um tyrkneska Ofurbikarinn þannig að ég er bara spenntur fyrir komandi tímabili.

Elmar mun því færa sig um set á næstu dögum en hann hefur búið í suðurhluta Tyrklands í borginni Gaizentep, rétt við landamæri Sýrlands, en mun nú flytja í vestanvert landið til borgarinnar Izmir.

„Við þurfum að flytja núna sem er svo sem bara jákvætt þannig séð. Við munum flytja til Izmir sem er ein besta borgin í Tyrklandi að búa í. Hún er staðsett í Vestur-Tyrklandi þannig að þetta er skref upp á við fyrir fjölskylduna,“ sagði Elmar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert