Sigur í vítaspyrnukeppni dugði ekki

Jesse Lingard fagnar marki sínu í Wales í kvöld.
Jesse Lingard fagnar marki sínu í Wales í kvöld. AFP

Manchester United hafði vinninginn í vítaspyrnukeppni gegn AC Milan á alþjóðlega mótinu Champions Cup í knattspyrnu í dag en leikið var í Wales. Staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma áður en United vann vítaspyrnukeppnina, 5:4.

United átti möguleika á að vinna æfingamótið með sigri í dag en hefði þá þurft að vinna með þremur mörkum eða meira. Það fór vel af stað hjá Manchester-mönnum og Marcus Rashford kom liðinu yfir strax á 14. mínútu.

Klaufagangur í vörn United varð hins vegar til þess að Ítalirnir jöfnuðu metin á 26. mínútu en það gerði Suso með þrumuskoti utan teigs. Victor Lindelöf varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark áður en Jesse Lingard jafnaði metin fyrir United í síðari hálfleik. Fleiri urðu mörkin ekki og varð því að grípa til vítaspyrnukeppni.

Þar nýtti hver leikmaðurinn á fætur öðrum spyrnu sína áður en Daniel Maldini, sonur kempunnar Paolo Maldini, klúðraði fimmtu og síðustu spyrnu AC Milan. Walesverjinn og heimamaðurinn Daniel James skoraði því úr sigurvítinu. United lýkur því keppni með átta stig og er í öðru sæti sem stendur en Benfica frá Portúgal stendur uppi sem sigurvegari í keppninni með fullt hús stiga eftir leikina þrjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert