Bayern vill Coutinho líka

Coutinho varð Suður-Ameríkumeistari með Brasilíu í sumar.
Coutinho varð Suður-Ameríkumeistari með Brasilíu í sumar. AFP

Þýskalandsmeistarar Bayern München hafa mikinn áhuga á að fá knattspyrnumanninn Philippe Coutinho til félagsins frá Barcelona. Bayern fékk Króatann Ivan Perisic frá Inter á lánssamningi fyrr í dag og er ekki hætt. 

Bayern fylgist vel með fyrirhuguðum félagsskiptum Neymar frá PSG, en hann hefur verið orðaður við Barcelona. Neymar gæti farið til Barcelona og myndi Coutinho mögulega fara í hina áttina. Gangi það ekki eftir, ætlar Bayern að reyna að fá Coutinho til sín að láni. 

Bacelona er reiðubúið að selja Coutinho, en vill 80 milljónir punda fyrir leikmanninn. Ekkert félag hefur gert sig líklegt til að greiða svo háa upphæð fyrir leikmanninn, en lánssamningur er mögulegur. 

Sky greinir frá því í dag að Bayern viji fá Coutinho að láni í tvö tímabil, líkt og félagið gerði með James Rodriguez frá Real Madríd árið 2017. Coutinho á fjögur ár eftir af samningi sínum við Barcelona og var hann m.a orðaður við Tottenham á dögunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert