Tók sjónvarpsþátt fram yfir æfingu

Adil Rami er ekki lengur leikmaður Marseille.
Adil Rami er ekki lengur leikmaður Marseille. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Adil Rami hefur verið rekinn frá Marseille fyrir að skrópa á æfingu. Það gerði hann til að taka þátt í sjónvarpsþættinum Fort Boyard, þar sem hann tók þátt í leðjuglímu. 

Varnarmaðurinn átti að mæta á æfingu 20. maí, tveimur dögum eftir sigur liðsins á Toulouse, þar sem hann meiddist. Þess í stað var hann þátttakandi í sjónvarpsþættinum, þrátt fyrir að vera enn tæpur vegna meiðslanna. 

Enginn innan félagsins vissi að Rami hefði tekið þátt í sjónvarpsþættinum, sem var sýndur 29. júní. Þegar það kom í ljós var honum tjáð að hann þyrfti ekki að mæta til æfinga í sumar, er liðið undirbjó sig fyrir tímabilið sem hófst um síðustu helgi.

Rami varð heimsmeistari með Frakklandi á síðasta ári, en árið í ár er búið að vera töluvert erfiðara. Leikkonan Pamela Anderson hætti með honum fyrr á árinu og nú er hann án félags. 

mbl.is