Á förum eftir tveggja mánaða dvöl?

Luka Jovic hefur ekki heillað Zinedine Zidane á undirbúningstímabilinu.
Luka Jovic hefur ekki heillað Zinedine Zidane á undirbúningstímabilinu. AFP

Luka Jovic, framherji spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, gæti verið á förum frá félaginu en það er Marca sem greinir frá þessu. Jovic gekk til liðs við Real Madrid frá Eintracht Frankfurt fyrr í sumar en Real Madrid borgaði 62 milljónir punda fyrir serbneska framherjann sem skoraði 17 mörk í 32 leikjum í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð. 

Jovic skrifaði undir sex ára samning við Real Madrid í júní en hann var fyrstu kaup félagsins í sumar. Marca greinir frá því að Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, hafi efasemdir um leikmanninn og hvort hann sé nægilega góður til þess að spila í spænsku 1. deildinni á komandi leiktíð.

Jovic skoraði 27 mörk í 48 leikjum með Eintracht Frankfurt á síðustu leiktíð í öllum keppnum en hann er 21 árs gamall. Fjölmiðlar á Spáni telja að Real Madrid gæti lánað leikmanninn á þessari leiktíð en Real Madrid eyddi háum fjárhæðum í nýja leikmenn í sumar en gengi liðsins á undirbúningstímabilinu hefur verið langt undir væntingum.

mbl.is