Glódís áfram með fjögurra stiga forskot

Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar hennar eru í góðum málum.
Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar hennar eru í góðum málum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar hennar hjá Rosengård eru enn þá með fjögurra stiga forskot á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir sannfærandi 3:0-sigur á Limhamn Bunkeflo á heimavelli í dag. 

Glódís lék allan leikinn í vörn Rosengård sem er með 30 stig á toppi deildarinnar, fjórum stigum á undan Gautaborg. Andrea Þórisson spilaði síðustu 13 mínúturnar með LB. 

Sif Atladóttir lék allan leikinn með Kristianstad í 3:1-sigri á Växjö á heimavelli. Svava Rós Guðmundsdóttir var allan tímann á varamannabekknum. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari liðsins. 

Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan tímann í vörninni hjá Djurgården sem mátti þola 2:4-tap fyrir Eskilstuna á útivelli. Guðrún Arnardóttir var allan tímann á varamannabekknum. Anna Rakel Pétursdóttir kom inn á sem varamaður á 35. mínútu í 1:2-tapi Linköpin fyrir Kungsbacka á útivelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert